þriðjudagur, janúar 04, 2005

Loksins, loksins er ársuppgjörið mitt tilbúið....

Árið 2004 var langt en gott ár, ég verð að viðurkenna að ég afrekaði ansi margt á þessu ári.

Byrjaði árið í Mývatnssveit ásamt hóp af alveg hreint ágætis fólki, þótt veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta. Janúar, febrúar og mars fóru í að læra, hanga á kaffihúsum og ræða heimsmálin við fólkið mitt. Skrapp á þorrablót í sveitinni og gerði mína vanalegu skandala og þjónaði á Nordica einstaka helgar. Í Apríl tóku við stúdentspróf frá helvíti sem ég kláraði bara alveg ágætlega þótt ég segi sjálf frá. Tónlistarnámið stundaði ég ekki eins vel samt.... Gat ekki staldrað við í borginni aðgerðarlaus og þaut upp í sveit og byrjaði að vinna sem lobbýdama.
Í 4 mánuði seldi ég herbergi, miða í skoðunarferðir og rútur, nammi, póstkort og landakort og gerði það bara prýðisvel. Þreif sömu gólfin og klósettin þúsund sinnum og er nálægt því að vera þrifsérfræðingur eftir þetta sumar. Skrapp reyndar á Hróarskeldu, sem úr varð þvílíkt tekjutap, kom líka heim nær dauða en lífi, en án efa eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Verslunarmannahelginni eyddi ég í vinnunni eins og öllum ágústmánuði, en þá voru vaktirnar mínar orðnar meirihluti sólarhringsins og ég gerði lítið annað en að vinna.
Í september afrekaði ég að verða tvítug á frekar friðsælan hátt. Ég, Eva og Halldóra borðuðum bestu máltíð sem ég hef fengið á Friðriki 5 og skemmtum svo öðrum á eftir... þraukaði svo um það bil 10 daga í viðbót í sveitinni, þar sem var orðið frekar einmanalegt.
20 september rauk ég til Möltu og stóð í þeirri meiningu að ég ætlaði að vera þar í 9 mánuði, þar ætlaði ég nú aldeilis að læra eitthvað af viti og ekkert koma heim í millitíðinni, en þau plön hafa nú breyst heldur mikið. Enda er Ísland best í heimi...
Kom heim núna í lok desember og greindist með... jah hef ekki greinst með neitt ennþá, er bara í endalausum blóðprufum. Læknirinn er með það að takmarki að hreinsa úr mér allt blóð held ég bara. Nei nei, ég er með eitthvað skylt einkirningasótt en samt eitthvað sem læknirinn er ekki alveg klár á hvað er. Niðurstöður ættu að fást í þessari viku.
Jólum og áramótum eyddi ég svo í faðmi fjölskyldunnar eða meirihluta hennar þar sem hinn hlutinn er í Mývatnssveit.
Staðan í dag er þannig að ég er í Reykjavík og kem til með að vera hér. Iðjulaus til að byrja með, svo vantar mig vinnu svo ég verði ekki iðjulaus því iðjuleysi er það leiðinlegasta sem ég veit.

Setning ársins 2004: Það er ekki 1 heldur allt!

Ég á engin áramótaheit fyrir 2005, af þeirri einföldu ástæðu að ég veit að ég stend ekki við þau. Planið er nú samt að halda áfram að vera þæg og góð og halda áfram að reyna að sigra heiminn.