þriðjudagur, mars 20, 2007

Besta pylsa sem ég hef á ævi minni fengið var ísköld þvæld pylsa sem Eva kom með í Hveragerði eldsnemma morguns þegar við vorum þar í djúpulaugarferðinni alræmdu. Mig dreymdi þetta tiltekna atvik í nótt... fyndið, var ég svona svöng?

Draumfarir mínar hafa nú ekki verið sérlega kræsnar undanfarið. Þær hafa meiraðsegja verið svo slæmar að ég sef varla hálfan svefn af hræðslu við að dreyma sama viðbjóðinn.

Fyrsti draumurinn gerðist á einhverskonar heimavist fyrir háskólanema, og mér fannst það vera Bifröst þar sem við Eva vorum herbergisfélagar. Við vorum að fara í einhverja veislu þegar ég fæ að fá svakalega verki í munninn og tennurnar byrja að detta út hver á fætur annarri og á stuttum tíma missi ég þarna 5 tennur. Ég sat með þær í hendinni og man að ég hugsaði: "fjandinn, þetta á eftir að verða dýrt..." á sama tíma duttu gleraugun mín í gólfið og brotnuðu í tvennt. Ég segi Evu síðan að drífa sig bara í veisluna því ég ætli að reyna að tjasla kjaftinum á mér saman. Ég var rétt búin að sleppa orðinu þegar ég finn svakalegan sársauka í munninum, svo slæmt að ég leggst í gólfið öskrandi af þessum sársauka. Eva hleypur til að sækja verkjatöflur og þá finn ég hvernig gómurinn á mér brotnar hægt í tvennt, svo sárt og svo vont... þarna vakna ég síðan. Ennþá með sársaukann í munninum.

Allan daginn eftir fann ég hvar gómurinn hafði brotnað og hvernig tennurnar höfðu dottið út smám saman, meeeeen talandi um að lifa sig inn í draumana sína!

Næstu nótt leggst ég upp í rúm, ákveðin í að dreyma ekkert. Dauðþreytt og tilbúin að sofna djúpum draumlausum svefni. En NEI það var bara of gott til að vera satt, ég er ekki fyrr sofnuð en draumurinn hefst á ný. Hann hefst á sama stað og kvöldið áður, á heimavistinni, á leið í veislu, að missa tennurnar. Meeeen ái sársauki dauðans, enn verra en kvöldið áður og í þetta skipti missti ég bara 1 tönn, aðra framtönnina. Stuttu síðar brotnaði gómurinn og ég vakna aftur við sársaukann.

Þriðja kvöldið þar sem ég leggst til hvílu hugsa ég með mér, fjandinn mig má ekki dreyma þetta einu sinni enn. Hjátrúin segir að ef manni dreymi sama drauminn þrisvar þá rætist eitthvað úr honum. Það mátti klárlega ekki gerast. Ég var því miður ekki sérlega uppgefin, og lagðist upp í rúm, en með allar varnir á, kveikti á sjónvarpinu, vatnsglas við hliðina á rúminu, fór í ullarsokka svo mér yrði nú ekki kalt og var með tvær sængur. Aðra ofan á mér og hina til að knúsa svoltið. Þessa nóttina dreymdi mig ekkert, hins vegar fannst mér í hvert skipti sem ég lokaði augunum og var að sofna að hjartað í mér væri að stoppa og þetta væri hreinlega mitt síðasta. Ég var því alltaf að opna augun athuga með hjartað, labba smá hring í íbúðinni og svona gera hluti til að halda mér vakandi. Það var nú ekkert öðruvísi en ég sofnaði ekki fyrr en kl 06 um morguninn, þá svo dauðuppgefin að loksins loksins loksins átti ég draumlausan svefn.

Í dag er allt ljúft og fínt og ég sef vel á mínu græna eyra, ég er lifandi með sterkt og fínt hjarta.