sunnudagur, september 23, 2007

Hvasst rigningarkvöld í Arnarsíðu.

Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég flutti frá Mývatnssveit til Reykjavíkur rétt tæplega 16 ára gömul. Flaug með lítilli flugvél frá Akureyri, hágrátandi, gjörsamlega, ekki til í það neitt að vera send í borgina. Ég fann alveg að það lá eitthvað í loftinu, ekki nóg með það að eitthvað lægi í loftinu, heldur var ég líka að fara frá fólki sem mér fannst þá vera bestu vinir mínir í öllum heiminum. Byrja í nýjum risastórum skóla, RISASTÓRUM, miðað við litla sveitaskólann sem ég ég var nýbúin með. Þetta þýddi bara eitt... kynnast nýju fólki, nýjum stöðum og gera nýja hluti. Þuríður tæplega 16 ára var alveg ekki neitt tilbúin til þess að gera það. Eyddi einu og hálfu ári í að þekkja engan, tala við engan og gera ekkert skemmtilegt. Það var ekki mitt val að flytja og ég ætlaði ekki að láta þetta ganga. En auðvitað gekk það á endanum. Það gekk svo vel að þennan rigningardag þegar ég var rétt tæplega 16 ára, hágrátandi á leið til Reykjavíkur grunaði mig alls ekki að lífið mitt ætti eftir að snúast þessa leið. Mér datt ekki í hug að ég fengi öll þessi tækifæri sem mér voru gefin og þaðan af síður grunaði mig að ég myndi koma mér upp bestu vinum í veröldinni og þótt víða væri leitar. Þetta fólk, er enn þann dag í dag að sanna einstaka vináttu og hlýju og ég elska þau endalaust.

Ég finn mig einhvernvegin í sömu sporum í dag, en þroskaðri og eldri og meira tilbúin til þess að takast á við nýjar aðstæður. Flaug til Akureyrar í kvöld, með lítilli flugvél. Ekki grátandi, ekki einu sinni óhress. Bara glöð, glöð yfir nýjum tækifærum sem koma með því að flytja um landshluta. Ég á bestu vinina og bestu fjölskylduna í Reykjavík, hin besta fjölskyldan er í Mývatnssveit og ég veit að allt þetta fólk er til staðar fyrir mig þegar mig langar að koma heim og þarf styrk og hlýju. Ekki málið. Á Akureyri hins vegar bíða mín verðug verkefni. Mörg mjög verðug verkefni. Þau eru góð og ég er tilbúin til þess að takast á við þau. Ekki málið.

Þar kemur líka vendipunkturinn, ég er ekki í sömu sporum í dag. Ekki neitt. Ég þurfti af brýnni nauðsyn að fara burt úr Reykjavík, til þess að finna ró innra með mér til að ná þeim takmörkum sem ég hef sett mér í lífinu. Ég verð ekkert lengi. Kem heim bráðum. Fyrst ætla ég að klára það sem þarf að gera hér.