þriðjudagur, mars 11, 2008

Ég talaði við ástkæru móður mína í gær. Hún sagði mér það í fréttum að Rita vinkona hennar í vinnunni hefði sagt henni sögu. Hún var svo æst yfir þessu gamla að ég leyfði henni að segja mér söguna, þá var það víst þannig að mamma hennar Ritu bannaði henni að vera í sambandi fram að 24 ára aldri, svo þegar hún varð 24 ára byrjaði mamman að reka á eftir henni að finna sér mann. Sem Rita svo og gerði.

Mamma sagði að hún væri sammála þessu, nú væri ég orðin nógu gömul og ætti að drífa mig að finna mér mann.

Eva vinkona sagði mér líka í haust að þegar konur væru 24,8 ára væru þær á hátindi lífsins, bæði líkamlega og barnsburðarlega séð.

Amma spurði mig eftir áramótin hvort ég væri komin með hring.

Er ég eitthvað á síðasta séns?
Ég er ekki orðin 24 ára, ég er ekki einu sinni orðin 23,8 ára svo tæknilega séð á ég rúmt ár eftir í þennan hátind. Ég er ekki orðin 24 ára, en ég held að mamma hafi verið að vara mig við. Mér finnst ég ekkert þurfa mann, ég bý með 2 það dugir í bili. Hvað á ég að gera við mann? Svo veit ég ekki hvernig maður finnur sér mann. Ég er ekkert á síðasta séns. Ég er bara bjáni.