sunnudagur, apríl 06, 2008

Það var örþreytt Þuríður sem settist upp í bíl hjá Guðjóni um hádegisbil í gær, enda tekur það á að vera sjóræningi í heila nótt... það er sko ekki fyrir hvern sem er. Við keyrðum í þessu flotta blíðskaparveðri hérna upp í sveit í gær, og það var svo fallegt, ég fékk gæsahúð! Sól og heiðskýrt og örlítil snjókoma og snjókornin virkuðu eins og demantar í sólskininu. Dásamlegt....

aaaaaaaanyways. Mér var boðið að vera með á heimaréttarkvöldi á hótelinu, sem var dásamlegt. Það var hlaðborð og á því var silungasúpa, þurrkað hangikjöt, reyktur silungur, soðinn silungur, siginn silungur, kæst egg, kótilettur og svo framvegis og svo framvegis... ég lét nú svo sem ekki allt ofan í mig, en það sem ég fékk mér var GOTT. Riesling smá í glas og góðar samræður með skemmtilegu fólki. Það var gaman að hlusta á þessa kalla segja sögur úr sveitinni, sögur sem þeir ýmist höfðu heyrt sem börn eða orðið vitni að.
Stuttu eftir mat sat ég í matsalnum með pabba mínum og hann var að ræða við menn héðan úr sveitinni og ég hugsaði með mér... alveg vá... þetta var eitthvað svo mikilvæg stund og ég greypti hana í minni mitt. Þetta var akkúrat stund sem mér fannst mikilvægt að muna.
Í dag er það sama uppi á teningnum, sólin skín, það er heiðskýrt og bjart, snjórinn er alveg sléttur... ég held ég skjótist á sleða bara...