föstudagur, maí 02, 2008

Stundum er ég svo hissa á sjálfri mér að ég veit ekki hvað á að gera, eða einhvernveginn hvernig ég á að taka því. Eða hvernig ég á að útskýra sjálfa mig fyrir öðru fólki, afhverju ég gerði hlutina svona og hinsegin. Oft framkvæmi ég án þess að hugsa hlutina til enda. Oftast á ég samt erfitt með að ræða það sem er í vinnslu. Ekki bara oftast heldur alltaf svona einskonar "hvað er að gerast hérna?" spurning. Ég veit það heldur aldrei, af því ég skil ekki sjálfa mig... í fæstum tilfellum að minnsta kosti.
Í uppeldi mínu var lögð áhersla á að láta ekki annað fólk hafa áhrif á skoðanir mínar og gjörðir og fordómaleysi í starfi og leik. Mamma sagði mér að ég ætti að taka öllum sem jafningjum mínum og ég hugsa til þess á hverjum degi þegar ég hitti nýtt fólk Ég reyni eftir fremsta megni að lifa eftir þessu, geri og segi nokkurn veginn það sem mér dettur í hug og ætlast pínulítið til þess í staðinn að fólk geti tekið mér algjörlega eins og ég er. Ég kynnist næstum því daglega nýju fólki, allt mitt líf hef ég kynnst nýju fólki. Ótal grunnskólar, tónlistarskólar, dansskólar, sumarbúðir, sumarstarfsfólk í Mývatnssveit og svo framvegis. Hellingur af fólki á öllum þessum stöðum. Þegar ég var ung og vitlaus dæmdi ég fyrirfram, dæmdi rangt fyrirfram. En... ég er dugleg núna, gef öllum tækifæri, ef ég gef ekki fólki tækifæri afhverju á ég þá skilið tækifæri í lífinu.
Stundum er ég ósanngjörn, ósanngjörn af því hlutirnir eru ekki að fara akkúrat eins og ég vil að þeir fari. Það er ekkert nema frekja ég veit það, enda er ég í stöðugri vinnu í sjálfri mér að hemja þessa ótemju innra með mér. Hún er þarna, svona er ég. Með hverjum deginum samt þroskast ég og geri mér betur grein fyrir hlutum. Öllum hlutum, hvað það er sem mér þykir vænt, hvað það er sem mér finnst í alvöru gaman að gera. Hvað það er sem mér finnst notalegt og hvað það er sem ég hef enga unun af að gera. Á hverjum degi geri ég mér grein fyrir því betur og betur hvað það er sem skiptir máli í lífinu og allsstaðar í kringum mig. Í dag átti ég góðan dag, ég fann að Akureyri skiptir mig máli, vinkonur mínar hérna eru ómetanlegar. Mér datt ekki í hug þegar ég flutti hingað að ég ætti eftir að eignast svo góðar og hjartahlýjar vinkonur. Ég er heppin. Í Reykjavík eru svo hinar, demanta vinkonurnar. Ég er líka heppin þar.
Ég veit það fullvel að ég er ekkert venjuleg manneskja, það er kannski bara af því ég er eins og ég er.
Bottom line.. eins og staðan er í dag þá skil ég sjálfa mig vel. Ég veit hvað ég vil og nokkurn veginn hvernig ég ætla að ná því takmarki. Það er á smá svona langtímaplani, en það er on.